TINDRANDI LITIR BRÆDDIR Á PAPPÍR Í L51 ART CENTER

TINDRANDI LITIR BRÆDDIR Á PAPPÍR Í L51 ART CENTER






Tindrandi litir bræddir á pappír í L51 Art Center - Logafjöll og ljósadans


Glitrandi litir eru þessa dagana bræddir á myndir af eldfjöllum og norðurljósum í kjallara L51 Art Center Laugavegi 51. Þar stendur nú yfir myndlistarsýning Rúnu K. Tetzschner, Logafjöll og ljósadans, en myndirnar eru unnar með sérstakri blandaðri tækni sem Rúna hefur þróað síðan 1999.


Um er að ræða tússlita- og vatnslitamyndir unnar með pennum og penslum á pappír, auk þess sem tindrandi duftlitir eru bræddir á myndirnar. Dagana fyrir páska, 3.-4. apríl kl. 15-18 og laugardaginn 7. apríl kl. 13-16 situr Rúna í galleríinu og bræðir liti á pappír þannig að gestir og gangandi fá tækifæri til að sjá hvernig þetta er gert.


Myndir Rúnu hafa á sé ævintýra- og töfrablæ, og má kenna myndlist hennar við töfraraunsæi (magical realism) eða andlega list (spiritual art). Risastórt skrautfiðrildi sveimar um yfir glóandi hrauninu og hugrökk eldkona laugar sig í vatninu við gosið. Ljósverur og verndarenglar skrýðast norðurljósum og töfrandi litlir bátar sigla yfir himininn.


Á sýningunni má einnig sjá skrautskriftarverk þar sem ljóð eru skrautrituð inn í myndirnar og vinnur Rúna þar meðvitað undir áhrifum lýsinga og fornra handrita.


Sýning Rúnu í L51 Art Center stendur út apríl.


Flestar myndirnar eru frá tímabilinu 2008.


Rúna sýnir um þessar mundir líka á þremur stöðum á Norður-Jótlandi í Danmörku (í nágrenni Álaborgar). Þótt hún sé búsett á Íslandi hefur hún frá árinu 2008 dvalið langdvölum í Danmörku og verið ötul við að kynna Ísland og íslenska menningu á ferðalögum sínum þar.


Rúna er íslenskufræðingur að mennt og starfaði árin 1996-2008 sem sérfræðingur og kynningarstjóri á Þjóðminjasafni Íslands. Samhliða því starfaði hún við listsköpun, ritlist, myndlist og skrautritun, og rak Ljós á jörð, forlag og listrænt fyrirtæki. Rúna er höfundur fræðibóka, ljóðabóka, barnabókar og annars barnaefnis. Rúna stundaði einnig nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík árin 1977-1983 og 1992 og hefur notið leiðsagnar Gunnars S. Magnússonar myndlistarmanns.


Árið 2008 tók Rúna þá ákvörðun að helga sig listum og er nú sjálfstætt starfandi listamaður.




Bestu kveðjur
Ljós á jörð / Jordens lys / Spiritual Art Sparkles
Myndlist, textar og skrautritun

Netfang / Mail:
[email protected] eða [email protected]
Sími / Mobile: (+354) 691 3214
Heimasíður / Websites:
http://www.jordenslys.dk/ljos-a-jord
http://www.etsy.com/shop/SpiritualArtSparkles





Tags: bræddir á, eru bræddir, center, litir, bræddir, tindrandi, pappír