REYKJAVÍK 5 MAÍ 2004 EFNI BÆTT MATARÆÐI AUKIN








Efni: Bætt næring - aukin hreyfing barna og unglinga






Reykjavík, 5. maí 2004





Efni: Bætt mataræði - aukin hreyfing barna og unglinga




Ágæta sveitarstjórn/bæjarstjórn,



Lýðheilsustöð (LHS) er nú að hefja verkefni um bætt mataræði og aukna hreyfingu barna og ungmenna og hefur áhuga á að fara í samstarf við nokkur sveitarfélög um þróun á slíku verkefni.


Ofþyngd barna og unglinga er hratt vaxandi vandamál í vestrænum löndum, sem við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af, en ofþyngdinni fylgja oftar en ekki heilsufarsleg, sálræn og félagsleg vandamál. Brýn ástæða er því til að beina sjónum sínum meira að ofneyslu og hreyfingaleysi og hættunni sem þessu fylgir. Árangursríkasta leiðin til að snúa þessari þróun við eru markvissar forvarnir og heilsuefling með megináherslu á breytingu á matarvenjum og aukna hreyfingu.


Markmið verkefnisins er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna og fjölskyldna þeirra á sem jákvæðastan hátt og með víðtæku samstarfi menntastofnana, heilsugæslu, íþrótta- og æskulýðsstarfs, atvinnulífsins, félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila. Reiknað er með að í upphafi verði athyglinni beint að leik- og grunnskólum. Áætlað er að fyrsti hluti verkefnisins standi yfir í tvö ár og að þeim loknum er stefnt að því að árangur verkefnisins verði metinn.


Á vegum Lýðheilsustöðvar verður einn starfsmaður í verkefninu auk stýrihóps, sem er ætlað að vera til stuðnings og ráðgjafar, en sjálft verkefnið á að vera á ábyrgð sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að innan hvers þátttakandi sveitarfélags verði einnig starfandi vinnuhópur sem tryggir framgang verkefnisins.


Sem fyrr segir er verkefnið að hefjast og með þessu bréfi erum við að kanna áhuga sveitarfélaga á að koma að því. Sé áhugi til staðar á samstarfi hafið þá vinsamlega samband við Lýðheilsustöð, sími 585-1470, en jafnframt er fyrirhugað að fylgja erindinu eftir á komandi hausti.


Gott líf – allra hagur




F.h. Lýðheilsustöðvar


Anna Elísabet Ólafsdóttir Jórlaug Heimisdóttir

Forstjóri Lýðheilsustöðvar Verkefnisstjóri







Tags: aukin hreyfing, aukin, mataræði, reykjavík