UNGMENNADRÁPA IN MIKLA SÁ EG ÞAR FARA Á FUND








Ungmennadrápa en mikla

Ungmennadrápa in mikla



Sá eg þar fara á fund

fólk með glaða lund.

Sveinn og silkihrund

sátu um hverja stund

til að kela og kljást,

kyssa margur sást.

Margur maki brást

mátti trega og þjást.


Þar var Þórarinn

þybbinn forsprakkinn,

greindur garpurinn

giftist ekki um sinn.

Og svo Árni vor

á þar nokkur spor.

Pestarprófessor

prýðir rögg og þor.

(Þórarinn Kristjánsson Holti

Árn i Kristjánsson Holti)


Þar er Eggert einn

oft til happa seinn.

Stöðugt stíft sem teinn

stendur herrann beinn.

Er þar Einar Ká

ekki smart að sjá.

Létt framleiðir sá

ljóðin tær og blá.

(Eggert Ólafsson Laxárdal

Einar Kristjánsson Hermundarfelli)


Þar og Þórir er

þykir fylginn sér.

Löngum leggur sá

lúðuveiðar á.

Og Ketill kempan sú

er kann að stunda bú.

Heimaríkur hann

helst til virðast kann.

(Þórir Björgvinsson Flögu

Ketill Björgvinsson Kollavík)


Anna ung og hrein

er sem dúfa á grein.

Feita bráð sem fyrr

finna haukarnir.

Anna Aðalbjörg

ekki virðist körg.

Út í dufl og dans

dregur huga manns.

(Anna G. Jóhannesdóttir Gunnarsstöðum

Anna Aðalbjörg Sveinbjörnsdóttir Gunnarsstöðum)


Fríða glöð og góð

gengur ekki úr móð.

Þangað stendur stríð

stöðug biðlahríð.

Að vísu er Gunna gift

getur sér þó lyft

kát í hverskyns höpp

krækir stráka á löpp.

(Hólmfríður Aðalsteinsdóttir Hvammi

Guðrún Kristjánsdóttir Hermundarfelli)


Lína ljúf og kát

löngum gerir mát.

Óðar eldur brann

ef hún blikkar mann.

Og svo Ingibjörg

æði kostamörg.

Lófaloðin er,

létt í dansinn fer.

(Ólína Guðbjörnsdóttir Syðra-Álandi

Ingibjörg Halldórsdóttir Svalbarðsseli)


Lárus litli þar

lítið heppinn var

Hann er ungur enn,

allt mun lagast senn.

Hvatur karlinn hér

kempulega ber

biðilsbuxurnar

býsna trosnaðar.

(Lárus Þorleifsson Garði

Sighvatur Kjartansson Hvammi)


Höldar harða pínu

hljóta af Karólínu.

Mæna með óþreyju

á margfrátekna meyju.

Arnbjörg engum tekur

alla frá sér hrekur.

Sjálfsagt sig má vara

svo hún pipri ei bara.

(Karólína Jakobsdóttir Kollavík

Arnbjörg Kristjánsdóttir Holti)


Finnst fögur Þóra

fær biðla stóra.

Vandi er að velja

víst má það kvelja.

Vilborg var þar líka

vill margur slíka.

Seggjum sýnir hrekki

sýnd en gefin ekki.

(Þóra Ólafsdóttir Laxárdal

Vilborg Kristjánsdóttir Holti)


Gummi hátt lét hvína

harmoniku sína.

Löngum leggur færið,

lítt vill hlaupa á snærið.

Og Vibbi velspilandi

var þar líka á randi.

Sér hann veiða vildi

voðasætt fiðrildi.

(Guðmundur Guðmundsson Garði

Vigfús Jósefsson Kúðá)


Sagt er að sér þar flíki

Sigvaldi hinn ríki.

Sá tók sér þá bestu,

sumir græða á flestu.

Og garpur í góðu standi

Gamsi á Sjóarlandi.

Varð sá fyrir vansa,

vill ei læra að dansa.

(Sigvaldi Halldórsson Svalbarðsseli

Gamalíel Guðjónsson Sjóarlandi


Þar er Friðrik frækni,

fríði brattasækni.

Mjög svo mjúkt þar læðist,

mest hann stúlkur hræðist.

Og svo litli Leifur,

léttvígur og hreifur

sem í svannaglaumi

sækir á í laumi.

(Friðrik Sveinbjörnsson Flögu

Leifur Guðjónsson Sjóarlandi)


Rögnu allir unna

einkum þeir sem kunna

með sönglistinni að seiða

og sífellt reyna að veiða.

Svo er nú hún Nanna

nettust allra svanna.

Hana herrar líta

hýrt – og krókinn bíta.

(Ragna Jóhannsdóttir Hvammi

Nanna Eiríksdóttir kennari)


Þarna geysist glaður

Guðjón kvennamaður.

Amors æðsti prestur

og útsendari bestur.

Svo er Friðgeir fríði

flokksins stærsta prýði.

Oftast eitthvað veiðir,

æsir, trukkar, seiðir.

(Guðjón Kristdórsson Sjóarlandi

Friðgeir Guðjónsson Holti)



Hvamms-Björn þar kemur

við kvenfólkið semur.

Hendir sú skissa

hann oft að missa.

En Sæmundur sæti

svo kvikk á fæti.

Ef eitthvað hreppir,

aldrei þá sleppir.

(Björn Aðalsteinsson Hvammi

Sæmundur Halldórsson Svalbarðsseli)



Og Baldur berserkur

bubbinn sem klerkur.

Allvel ósmeykur

oft hreppstjóra leikur.

Og garpur gríðarþykkur

Grímur búhnykkur.

Meyjum finnst feiminn,

hann forðast mjög heiminn.

(Baldur Jónsson Garði

Grímur Guðbjörnsson Syðra-Álandi


Einn er þar Haukur

útsprunginn laukur.

Til fljóða frekur,

finnst um margt sekur.

Og Þorsteinn inn gamli

þar trúi eg svamli.

Annar finnst valla

ennþá með skalla.

(Haukur Kjartansson Hvammi

Þorsteinn Þórarinsson Holti)


Treg er tunga og minni

tel ei fleira að sinni.

Mér ógnar mannvalið,

margt er ótalið.

Amors örvadrífa

engum mun hér hlífa.

Lukkan leiði alla

sem lifa eða falla.


Lokið skal ljóði,

lélegum óði.

Ei mun andans gróði

uppspretta af hnjóði.

En lifi lífsþrá svanna

og löngun að kanna

dirfsku og dáð manna

og drenglyndið sanna.


Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli






Tags: mikla sá, ungmennadrápa, mikla